Arsenal marði stig gegn nýliðunum

Alexandre Lacazette sækir að Tom Trybull á Carrow Road í …
Alexandre Lacazette sækir að Tom Trybull á Carrow Road í dag. AFP

Nýliðar Norwich og Arsenal skildu jöfn, 2:2, í fjörugu jafntefli á Carrow Road í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Á sama tíma sóttu aðrir nýliðar, Sheffield United, stig á Molineux með því að gera 1:1-jafntefli við Wolves.

Arsenal var að spila sinn fyrsta leik undir stjórn Freddie Ljungberg eftir að Unai Emery var rekinn í vikunni eftir afleitt gengi undanfarnar vikur. Það er enn óvíst hver tekur við liði Arsenal til frambúðar en ljóst að sá hefur mikið verk fyrir höndum.

Heimamenn komust í forystu á 21. mínútu þegar Teemu Pukki skoraði eftir fyrirgjöf Kenny McLean en varnarleikur Arsenal var afleitur í leiknum eins og svo oft áður. Þeir Shkodran Mustafi og David Luiz voru í vandræðum allan leikinn og gáfu Pukki markið næstum því á silfurfati í stað þess að reyna mótleik.

Gestirnir fengu vítaspyrnu skömmu síðar en Tim Krul virtist vera hetja Norwich þegar hann varði spyrnu Pierre-Emerick Aubameyang á 26. mínútu. Eftir VAR-athugun kom þó í ljós að leikmenn Norwich voru of snöggir inn í teig og þurfti því að endurtaka spyrnuna. Aubameyang gerði engin mistök í annað sinn og jafnaði metin.

Heimamenn endurheimtu hins vegar forystuna rétt fyrir hálfleik með marki Todd Cnatwell sem fékk ótrúlegan mikinn tíma og pláss til að athafna sig inn í vítateig Arsenal áður en hann skoraði. Aubameyang bjargaði þó stigi fyrir gestina með marki á 57. mínútu en það voru heimamenn sem sóttu stíft undir lok leiks og reyndu, án árangurs, að kreista fram jöfnunarmark. Arsenal er því í 8. sæti með 19 stig en Norwich er enn í næstneðsta sæti, nú með 11 stig og þremur stigum frá öruggu sæti.

Sheffield United hefur enn ekki tapað útileik á tímabilinu en liðið sótti jafntefli til Wolves í dag, 1:1. Lys Mousset kom gestunum yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en Matt Doherty tryggði heimamönnum stig með marki sínu eftir rúman klukkutíma leik. Bæði lið hafa komið á óvart í vetur og eru í 6. og 7. sætum deildarinnar. Wolves með 20 stig og Sheffield með 19.

Úrslitin
Norwich - Arsenal 2:2
Wolves - Sheffield United 1:1

Norwich 2:2 Arsenal opna loka
90. mín. Max Aarons (Norwich) á skot sem er varið Max Aarons er núna nálægt því að skora en boltinn hrekkur af afturendanum á Torreira sem náði að koma sér fyrir markið!
mbl.is