Eðlilegir núna en frábærir fyrir áramót (myndskeið)

Gengi Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var til umræðu í Vellinum á Síminn sport en Tómas Þór Þórðarson var með þá Frey Alexandersson og Bjarna Þór Viðarsson í þættinum hjá sér.

Sveinar Brendan Rodgers hafa aðeins unnið einn af síðustu fjórum deildarleikjum og aðeins fatast flugið eftir frábæra byrjun á tímabilinu. „Ég held, satt best að segja, að þessi úrslit séu bara eðlileg. Það sem þeir voru að gera fyrir áramót var kannski frekar stórkostlegt,“ sagði Freyr um Leicester en honum finnst liðið ekki hafa nógu mikla breidd til að halda dampi í deildinni.

„Jamie Vardy er ekki búinn að skora í síðustu sjö leikjum í öllum keppnum en þeir eru 12 stigum frá fimmta sætinu og þetta Meistaradeildarsæti er eiginlega komið,“ bætti Bjarni Þór við. Umræðurnar um Leicester má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is