Ég er leikskólalögga miðað við hann

Jürgen Klopp á fréttamannafundinum á Wanda Metropolitano-leikvanginum.
Jürgen Klopp á fréttamannafundinum á Wanda Metropolitano-leikvanginum. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að andstæðingur hans í kvöld, Diego Simeone hjá Atlético Madrid, slái honum algjörlega við hvað varðar ástríðu á hliðarlínunni.

Argentínumaðurinn er sérlega líflegur á varamannabekk Atlético og hvetur sína menn af miklum krafti.

„Fólk segir að ég sé ástríðufullur á hliðarlínunni en ef ég er á fjórða stigi þá er Diego á tólfta stigi. Ég er eins og leikskólalögga við hliðina á honum,“ sagði Klopp á fréttamannafundi í Madríd.

Fyrri leikur liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fer fram á Wanda Metropolitano-leikvanginum í Madríd í kvöld og hefst klukkan 20.

mbl.is