Fyrirliðinn lyftir bikarnum

Jordan Henderson fyrirliði Liverpool missir af lokaleikjum Liverpool á tímabilinu.
Jordan Henderson fyrirliði Liverpool missir af lokaleikjum Liverpool á tímabilinu. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpoo, mun lyfta Englandsmeistarabikarnum eftir lokaleik liðsins gegn Chelsea á Anfield þann 22. júlí næstkomandi en þetta staðfesti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í vikunni.

Henderson tekur ekki þátt í fleiri leikjum Liverpool á tímabilinu vegna meiðsla sem hann varð fyrir á hné gegn Brighton í vikunni en hann hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu. Henderson verður því ekki með í lokaleiknum gegn Chelsea. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að bikarafhendingin verði eins eðlieg og hægt er,“ sagði Klopp.

„Eins og áður hefur komið fram þá mun Hendo ekki getað spilað leikinn en hann verður á vellinum, í búningnum, tilbúinn að lyfta bikarnum. Allir leikmenn liðsins hafa óskað eftir því að Henderson lyfti bikarnum og þeir vilja hafa hann á eða í leiknum,“ bætti Klopp við í samtali við fjölmiðlamenn í vikunni.

mbl.is