Fær Liverpool lánsmann frá Barcelona?

Ousmane Dembélé, til hægri, eftir æfingaleik með Barcelona í vikunni.
Ousmane Dembélé, til hægri, eftir æfingaleik með Barcelona í vikunni. AFP

Englandsmeistarar Liverpool í knattspyrnu hafa haft samband við Barcelona með það fyrir augum að fá franska sóknarmanninn Ousmane Dembélé lánaðan fyrir nýhafið keppnistímabili.

Þessu er haldið fram í íþróttadagblaðinu Sport og sagt að Liverpool sé reiðubúið til að greiða Katalóníufélaginu hefðbundnar bætur fyrir lánið.

Dembélé er 23 ára gamall og kostaði Barcelona rúmlega 100 milljónir evra þegar hann var keyptur af Borussia Dortmund fyrir þremur árum en hann hefur ekki staðið undir væntingum til þessa. Á síðasta tímabili spilaði hann aðeins níu mótsleiki eftir að hafa meiðst í fyrsta leik deildarinnar og svo aftur í febrúar, en seinni meiðslin þýddu að hann lék ekkert meira á tímabilinu 2019-20.

Dembélé hefur leikið 21 landsleik fyrir Frakkland.

mbl.is