Ég var sjálfur aðdáandi Lampards

Thomas Tuchel á leik Chelsea og Wolves.
Thomas Tuchel á leik Chelsea og Wolves. AFP

Þjóðverjinn Thomas Tuchel sagði á fréttamannafundi í dag að það hefði verið auðveld ákvörðun fyrir  sig að taka boðinu um að gerast knattspyrnustjóri enska félagsins Chelsea.

Tuchel tók við liðinu á mánudagskvöldið og stýrði því í fyrsta skipti í markalausum leik gegn Wolves í gærkvöld.

„Hvers vegna ekki?" svaraði Þjóðverjinn spurningunni um hvers vegna hann hefði þegið boð Chelsea.

„Þetta var tækifæri til að starfa hjá einu af stærstu knattspyrnufélögum heims, í erfiðustu deild í heimi. Við töldum að það vari ekki hægt að missa af því tækifæri að gerast meðlimir í Chelsea-fjölskyldunni. Það var auðveld ákvörðun," sagði Tuchel.

Hann tekur við af Frank Lampard sem var rekinn fyrr í vikunni og var spurður hvort hann óttaðist slæmar viðtökur hjá stuðningsmönnum Chelsea þar sem Lampard væri goðsögn hjá félaginu.

„Ég veit það ekki. Vonandi ekki því það væri slæmt fyrir liðið. Stuðningsfólkið er svo náið félaginu og stendur þétt við bakið á því. Ég veit að það voru gríðarleg vonbrigði fyrir marga að Frank syldi vera rekinn og eins og ég hef áður sagt ber ég mikla virðingu fyrir honum. Ég var mikill aðdáandi hans sem leikmanns. Félagið hefur hinsvegar gert mér grein fyrir því að ég hafi ekkert haft með þessa atburðarás að gera. Ég get ekki breytt stöðunni fyrir hann. Þessi ákvörðun var  tekin og ég fékk þetta tækifæri," sagði Thomas Tuchel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert