Eiður um Gündogan: Hugsandi leikmaður

Þýski miðjumaðurinn Ilkay Gündogan hefur leikið á als oddi með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni undanfarið en hann hefur skorað 11 mörk í síðustu 12 leikjum sínum, þar af tvö í 3:0-sigri City gegn Tottenham á laugardaginn.

„Fyrir ári sáum við hann ekki taka hlaup án bolta, hann var frekar sá sem átti að finna sendinguna. Núna er hann bara fullur sjálfstrausts og þetta er hugsandi leikmaður. Hann tekur ekki tíu vond hlaup heldur tvö góð,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen um Þjóðverjann sem hafði aldrei áður skorað meira en sex mörk á einu tímabili.

Eiður var að ræða við þá Gylfa Einarsson og Tómas Þór Þórðarson í þættinum Völlurinn á Síminn Sport en umræðurnar má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is