Klopp trompaðist og skellti hurðum

Jürgen Klopp stýrði Borussia Dortmund frá 2008 til 2015 áður …
Jürgen Klopp stýrði Borussia Dortmund frá 2008 til 2015 áður en hann tók við Liverpool. AFP

Ilkay Gündogan, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, sagði skemmtilega sögu af knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp í viðtali við vefmiðilinn The Players Tribune á dögunum.

Klopp er knattspyrnustjóri Liverpool í dag en hann og Gündogan unnu saman hjá þýska 1. deildarfélaginu Borussia Dortmund frá 2011 til ársins 2015.

Saman urðu þeir Þýskalands- og bikarmeistarar árið 2012 og þá tapaði Dortmund í úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir Bayern München árið 2013 á Wembley í London.

„Það var regla hjá Dortmund þegar ég lék með liðinu að ef mönnum leið illa eða ef þeir voru tæpir þá áttu þeir að láta læknalið félagsins vita fyrir æfingu,“ sagði Gündogan.

„Ég vaknaði um morgunin og fann til aftan í læri en þetta var ekkert stórvægilegt. Ég lét læknateymið líta á þetta og þeir sögðu mér að ef ég finndi fyrir þessu þá ætti ég að sleppa æfingunni.

Ég hélt nú ekki og ætlaði mér að sjálfsögðu að æfa með liðinu. Klopp kom inn í herbergið og var ekki sáttur. Hann sagði stöðugt að hann vildi ekki taka neina áhættu með mig en ég sagði honum að ég gæti æft.

Þá snappaði hann og öskraði á mig að ég gæti þá bara drullast til að gera það sem ég vildi gera. Síðan stormaði hann út úr herberginu og skellti öllum hurðum sem á leið hans urðu. 

Ég fór í takkaskókna og gekk út á æfingasvæði. Klopp kom til mín og ég átti von á reiðilestri. Í staðinn tók hann utan mig og útskýrði fyrir mér að hann hefði reiðst því honum væri annt um mig og hann vildi aðeins það besta fyrir mig,“ bætti Gündogan við.

mbl.is