Verður ekki áfram í herbúðum Liverpool

Joelinton og Ozan Kabak eigast við í leik Liverpool og …
Joelinton og Ozan Kabak eigast við í leik Liverpool og Newcastle í lok apríl. AFP

Tyrkneski miðvörðurinn Ozan Kabak verður ekki áfram í herbúðum Liverpool á næstu leiktíð. Það er Sportsmail sem greinir frá þessu.

Kabak gekk til liðs við Liverpool á láni frá Schalke í janúarglugganum en enska félagið er með forkaupsrétt á varnarmanninum sem er 21 árs gamall.

Livepool þarf að borga 18 milljónir punda til þess að tryggja sér þjónustu leikmannsins en Ibrahima Konaté, varnarmaður RB Leipzig í Þýskalandi, er efstur á óskalista Jürgen Klopp í sumar.

Kabak lék síðast með Liverpool í 1:1-jafntefli liðsins gegn Newcastle á Anfield, 24. apríl, en hann hefur byrjað níu leiki fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Rhys Williams og Nat Phillips eru báðir fyrir framan hann í goggunarröðinni hjá Liverpool eins og sakir standa og afar ólíklegt að það breytist í lokaleikjum tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert