Tottenham að kaupa argentínskan landsliðsmann

Cristian Romero með Argentínu gegn Brasilíu í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar.
Cristian Romero með Argentínu gegn Brasilíu í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham og Atalanta frá Ítalíu hafa komist að samkomulagi um kaupverð á argentínska landsliðsmanninum Cristian Romero.

Tottenham greiðir ítalska félaginu 50 milljónir evra fyrir Romero, sem mun fljúga til London í vikunni og skrifa undir fimm ára samning.

Romero, sem er 23 ára, lék 42 leiki fyrir Atalanta á síðustu leiktíð en liðið hafnaði í þriðja sæti í ítölsku A-deildinni. Hann var áður hjá Juventus en lék ekki fyrir liðið.

Romero á fimm A-landsleiki fyrir Argentínu að baki. Hann lék m.a. úrslitaleikinn í Suður-Ameríkubikarnum í sumar þar sem Argentína vann 1:0-sigur á Brasilíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert