Hargreaves: Tel að Varane og Maguire verði magnaðir saman

Owen Hargreaves, fyrrverandi miðjumaður Manchester United, ræddi málefni liðsins á tímabilinu sem er nýhafið við Tómas Þór Þórðarson, ritstjóra enska boltans á Símanum Sport, í athyglisverðu viðtali.

Tómas Þór spurði hvorn leikmanninn Hargreaves teldi að yrði mikilvægari fyrir United á þessu tímabili, Raphael Varane eða Jadon Sancho.

„Það er erfitt að segja hvor verður mikilvægari. Allir gátu séð að United vantaði miðvörð og hægri kantmann og Varane og Sancho eru sannarlega menn í þær stöður.

Varane er reynslumikill leiðtogi og verður frábær. Ég held að hann og Maguire verði magnaðir saman. Ég tel að Sancho verði stórkostlegur þegar hann kemst á skrið,“ sagði Hargreaves.

Í viðtalinu ræða þeir einnig um varnartengiliðs stöðuna, gífurlegt mikilvægi hennar þegar kemur að því að vinna titla og hvort United standi nægilega vel að vígi í þeim efnum.

Með tilkomu nýrra leikmanna telur Hargreaves að United muni reyna að halda meira í boltann á þessu tímabili, en liðið var afar skætt í skyndisóknum á síðasta tímabili.

Spjall þeirra Tómasar Þórs og Hargreaves má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert