Salah er draumafyrirliði Saka

„Mohamed Salah,“ svaraði Bukayo Saka, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, þegar hann var spurður út í það hver yrði fyrirliði hans í Draumaliðsleik ensku úrvalsdeildarinnar.

Saka, sem er einungis 20 ára gamall, sat fyrir svörum hjá Síminn Sport á dögunum en þar gafst Íslendingum tækifæri til þess að spyrja enska landsliðsmanninn spjörunum úr.

Verkefnið var unnið í samstarfi við Samsung en Saka var meðal annars spurður að því hver hefði verið fyrirmyndin hans í fótboltanum í æsku.

„Cristiano Ronaldo var sá leikmaður sem ég leit mest upp til,“ sagði Saka meðal annars þegar hann svaraði spurningunni.

„Á sama tíma þá finn ég sjálfur ekki fyrir pressu að standa mig sem fyrirmynd fyrir unga krakka en ég hef alltaf reynt að vera ég sjálfur, alveg síðan ég man eftir mér. Þú ert besta fyrirmyndin þegar að þú reynir bara að vera þú sjálfur,“ sagði Saka meðal annars.

mbl.is