„Eins og að vera með Ferrari-bíla í bílskúrnum“

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kampakátur eftir sigurinn í kvöld.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kampakátur eftir sigurinn í kvöld. AFP/Glyn Kirk

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var himinlifandi með frammistöðu liðsins í naumum 2:1-útisigri á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Klopp gerði níu breytingar á byrjunarliði sínu frá sigrinum á Chelsea í bikarúrslitunum á laugardag enda fór úrslitaleikurinn í framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Hann hrósaði þeim leikmönnum sem hafa ekki verið fyrstir á blað á tímabilinu en léku margir hverjir í kvöld í hástert.

„Ég er svo ánægður með frammistöðuna, hún snerti satt að segja aðeins við mér. Að vera með þessa stráka er eins og að vera með Ferrari-bíla í bílskúrnum.

Harvey [Elliott], Curtis [Jones], Takumi Minamino, [Alex] Oxlade[-Chamberlain] spilaði ekki einu sinni og hann er í stórkostlegu formi,“ sagði Klopp á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Þetta er mjög erfitt fyrir strákana en hvað sem gerist þetta árið gerðist vegna þessa hóps. Þessi hópur er framúrskarandi. Þeir sýndu það í kvöld,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert