Ungstirni á leið til Newcastle

Newcastle er að styrkja leikmannahóp sinn.
Newcastle er að styrkja leikmannahóp sinn. AFP/Lindsey Parnaby

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United hefur náð samkomulagi við hinn bráðefnilega ástralska framherja, Garang Kuol, sem leikur með Central Coast Mariners í áströlsku A-deildinni.

Kuol er nýorðinn 18 ára og hefur skorað fjögur mörk í níu deildarleikjum fyrir Central Coast á tímabilinu.

Á dögunum lék hann svo sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ástralíu er hann kom inn á sem varamaður í vináttulandsleik gegn Nýja-Sjálandi.

BeIN Sports greinir frá því að Kuol hafi samþykkt fjögurra ára samning við Newcastle en að félögin tvö eigi enn eftir að komast að samkomulagi um kaupverð.

Gangi kaupin í gegn er reiknað með því að hann gangi til liðs Newcastle í janúar og verði strax lánaður til annars félags í Evrópu.

Kuol er fæddur í Egyptalandi en fjölskylda hans er frá Súdan. Fjölskyldan flúði fyrst frá stríðshrjáðu landinu til Egyptalands og þaðan til Ástralíu, þar sem hann hefur alist upp.

mbl.is