United bikarmeistari eftir sigur á City

Leikmenn og stjóri United himinlifandi eftir leik.
Leikmenn og stjóri United himinlifandi eftir leik. AFP/Ben Stansall

Manchester United er enskur bikarmeistari karla í knattspyrnu eftir sigur á Manchester City í nágranna- og erkifjendaslag í úrslitaleiknum á Wembley í Lundúnum í dag, 2:1.

Alejandro Garnacho kom Manchester United yfir á 30. mínútu leiksins eftir stórmistök í varnarleik City. Þá misskildu Josko Gvardiol og Stefan Ortega markvörður hvorn annan. 

Gvardiol skallaði boltann yfir Ortega og þaðan barst hann til Garnacho sem potaði honum inn í markið. 

Ungstirnið Kobbie Mainoo kom United í 2:0 á 39. mínútu eftir stórkostlegt spil. Þá sendi Garnacho á Bruno Fernandes sem átti magnaða sendingu á Mainoo sem renndi boltanum í netið. 

Þvílík byrjun United-liðsins sem var 2:0 yfir í hálfleik. 

Kobbie Mainoo kom Manchester United í 2:0.
Kobbie Mainoo kom Manchester United í 2:0. AFP/Justin Tallis

Erling Haaland var svo nálægt því að minnka muninn fyrir City er hann setti boltann í þverslána á 55. mínútu.

Varamaðurinn Jérémy Doku minnkaði muninn fyrir Manchester City, 2:1, á 87. mínútu leiksins með skoti utan teigs. Ándre Onana markvörður United sá boltann seint en hefði getað gert mun betur. 

Nær komust City ekki og vann United því bikarinn í 13. sinn. 

Kevin De Bruyne með boltann í dag.
Kevin De Bruyne með boltann í dag. AFP/Justin Tallis

Byrjunarlið Manchester City (4-5-1): Mark: Stefan Ortega. Vörn: Kyle Walker (fyrirliði), John Stones, Nathan Aké (Mnauel Akanji, 46.), Josko Gvardiol. Miðja: Rodri, Mateo Kovacic (Jérémy Doku, 46.), Bernardo Silva, Kevin De Bruyne (Julián Álvarez, 56.), Phil Foden. Sókn: Erling Haaland.

Byrjunarlið Manchester United (4-5-1): Mark: André Onana. Vörn: Aaron Wan-Bissaka, Raphael Varane, Lisandro Martínez (Jonny Evans, 73.), Diogo Dalot. Miðja: Sofyan Amrabat, Kobbie Mainoo, Alejandro Garnacho (Mason Mount, 90+4), Scott McTominay (Victor Lindelöf, 90+4), Marcus Rashford (Rasmus Höjlund, 73.). Sókn: Bruno Fernandes (fyrirliði).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert