Mótastjórn RÍSÍ svarar gagnrýni Zmackers

Hljóðnemar eru notaðir til þess að taka upp hljóð.
Hljóðnemar eru notaðir til þess að taka upp hljóð. Ljósmynd/Unsplash/Maik Jonietz

Útsending íslenska tölvuleikjaspilarans „Zmacker“ olli miklu fjaðrafoki í fyrradag, en hann hefur áður vakið athygli í tölvuleikjasamfélaginu og þá fyrir umdeildar athugasemdir sínar.

Zmacker var í beinni útsendingu í fyrradag á streymisveitunni Twitch og viðraði þar meðal annars skoðanir sínar á íslenska keppnisumhverfinu í Valorant. Vakti það mikla athygli meðal íslenskra rafíþróttamanna og tölvuleikjaspilara og má segja að mörgum hafi orðið mjög heitt í hamsi.

Spjallglugginn í ljósum logum

Í útsendingunni spilaði hann tölvuleikinn Trackmania meðan hann gagnrýndi fyrirkomulag Valorant-deildanna á Íslandi, þá einna helst fyrirkomulagi kvennadeildarinnar. Athugasemdir Zmackers urðu til þess að svo mikið fjarðafok varð í spjallglugganum að óhætt er að segja að hann hafi staðið í ljósum logum.

Þá benti hann á að kvennadeildin fengi sömu fjárupphæð og úrvalsdeildin ásamt jafn löngum útsendingartíma. Ábótavant þykir honum að kvennadeildin njóti sömu fríðinda og er það m.a. vegna þess að þátttökuskilyrði hennar felast aðeins í kynfærum, eða sjálfsmynd.

Skjáskot af spjallglugga útsendingar Zmackers.
Skjáskot af spjallglugga útsendingar Zmackers. Skjáskot/Twitch

Engin deild fyrir karla

Engin deild hefur verið sett upp fyrir karla líkt og fyrir konur, en þeir geta tekið aðeins þátt í opnu deildinni eða úrvalsdeildinni. Þátttökuskilyrði úrvalsdeildarinnar felst aðeins í hæfni og árangri innanleikjar. Getur því hver sem er, óháð kyni, unnið sig upp úr opnu deildinni og keppt í úrvalsdeildinni og geta konur því keppt í báðum deildum á sama tíma.

„Ástæðan fyrir því að þetta samtal olli miklum hita í samfélaginu er vegna þess tveir af stjórnarmönnunum eru i öðru liðinu, og ég held að önnur sé síðan i stjórn RÍSÍ, eða var það,“ segir Zmacker í samtali við mbl.is en það eru þrjú lið sem keppa í kvennadeildinni.

Bjarki Melsted, einn af mótastjórum, telur hita umræðunnar hins vegar ekki tengjast því að tveir meðlimir mótastjórnar spili í flokknum heldur vegna þess að margir hafi hreinlega verið ósammála honum.

Slátra nýliðum í beinni

Að mati Zmackers væri betri kostur að halda úti framabraut til þess að veita konum og öðrum nýliðum meiri stuðning og koma þeim lengra inn í keppnisumhverfið.

„Enginn getur sagt að kona sé verri en karlmaður. Enginn getur heldur sagt að það sé gaman að horfa upp á bestu konur landsins slátra nýjustu konunum 13:0,“ segir Zmacker.

„Hins vegar er ég hlynntur því að hafa ákveðna framabraut (e. stepping stone-deild). Þar sem væri ekkert verðlaunafé en hægt væri að aðstoða nýja leikmenn og konur. En til fjandans með það að taka pening og skjátíma af opnu deildinni.“

Áhorfendur þóttu lítið til ummæla Zmackers koma en mótastjórnin sjálf fagnar gagnrýni á verklag sitt og fyrirkomulagi en harmar aftur á móti gagnrýni á tilvist kvennadeildarinnar.

Fagnar og harmar á sama tíma

„Mótastjórn RÍSÍ í Valorant fagnar gagnrýni á verklag sitt og fyrirkomulagi á því hvernig deildir eru spilaðar, en harmar að gagnrýnd sé hrein tilvist kvennaflokksins,“ segir mótastjórn Valorant-deilda RÍSÍ í samtali við mbl.is.

„Þrátt fyrir að karlar hafi ekki líkamlega yfirburði yfir konur í rafíþróttum hafa þeir félagslega yfirburði þar sem tölvuleikjaspilun kvenna er enn litin hornauga og hljóta rafíþróttakonur almennt minni stuðning samfélagsins og síns nærumhverfis.“

„Þekkt er að andrúmsloft við rafíþróttaiðkun, sérstaklega þegar spilað er á netinu með ókunnugum, geti verið eitrað í garð kvenna.“

Opni flokkurinn og kvennaflokkurinn jafnir í augum RÍSÍ

Kvennaflokkurinn, eða kvennadeildin, í Valorant var tilraun RÍSÍ til þess að skapa öruggt rými fyrir konur sem iðka þessa rafíþrótt og var henni tekið fagnandi af þeim konum sem spila leikinn.

Má þá einnig nefna að kvennaflokkurinn fékk fleiri styrki inn í deildina fyrir þetta tímabil en opni flokkurinn og mælist áhorf útsendinga þeirra mjög jafnt.

„Þetta er jafnframt í takt við það sem Riot hefur verið að gera með Game Changers-leikjaröð sinni í leiknum og því eðlilegt skref hérlendis einnig.“

„Mótastjórn þykir eðlilegt að báðir flokkar Valorant deildanna, bæði opni og kvennaflokkurinn, fái jafn mikla birtingamynd enda jafnir í hennar augum."

Hlustar þú á tónlist þegar þú spilar?

  • Já að sjálfsögðu
  • Nei alls ekki
  • Stundum og stundum ekki
mbl.is