Räikkönen veðjaði á Nasr

Felipe Nasr á blaðamannafundi í Sepang í Malasíu.
Felipe Nasr á blaðamannafundi í Sepang í Malasíu. mbl.is/afp

Felipe Nasr hjá Sauber hefur ljóstrað því upp að það sé að hluta til Kimi Räikkönen að þakka að hann sé keppandi í formúlu-1.

Þetta hefur þó ekki orðið til þess að Nasr víki greiðlega fyrir Räikkönen í keppni, þvert á móti hafa þeir glímt innbyrðis í tveimur fyrstu mótunum í ár.

Í samtali við fréttastöðina Canal Latin America segir hann að samband þeirra sé náið. Árið 2010 hafi hann keppt í formúlu-3 í Englandi fyrir liðið „Double R“ sem Räikkönen og umboðsmaður hans, Steve Robertson, stofnuðu á sínum tíma. Robertson er nú einnig umboðsmaður Nasr.

„Kimi er meðal þeirra sem lögðu mér til fjármagn þegar fjölskyldan mín hafði ekki lengur efni á því,“ sagði Nasr. Hann hefur byrjað jómfrúarvertíð sína vel; varð fimmti í mark í fyrsta móti ársins, í Melbourne, og er sjötti í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, aðeins tveimur stigum á eftir Kimi, og framar en ökumenn á borð við Valtteri Bottas og Daniel Ricciardo.

Nú nýtur hann mikil styrktarfjár frá bankanum Banco do Brasil og keypti sæti hjá Sauber í krafti þess. Hann kann ekki að meta gagnrýni í garð ökumanna sem borga fyrir sæti í liðum.  „Hvaða vandamál er það fyrir menn að ég sé með nafn styrktarfyrirtækis á bílnum mínum? Hver er munurinn á að vera styrktur af Red Bull og láta þá í raun borga sætið fremur en persónulegur styrktaraðili?“ spyr hann og líkir þar með sem jafningum borgunarmönnunum
og þeim sem aldir eru upp og árum saman á mála hjá til að mynda drykkjarvörufyrirtækinu sem síðar keypti sér tvö lið í formúlu-1.

Felipe Nasr á ferð í beygju í Melbourne með Daniel …
Felipe Nasr á ferð í beygju í Melbourne með Daniel Ricciardo hjá Red Bull í kjölsoginu. mbl.is/afp
Felipe Nasr á ferð í Melbourne.
Felipe Nasr á ferð í Melbourne. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert