Wehrlein snýr aftur

Sauberliðið staðfesti í dag, að Pascal Wehrlein muni snúa aftur til keppni í kappakstrinum í Barein næsta sunnudag. Vegna meiðsla varð hann að sitja hjá í fyrstu tveimur mótunum í ár.

Wehrlein meiddist í baki í meistarakappakstrinum ROC í janúar og þurfti þrjá mánuði til að vinna sig út út þeim vanda. Þurfti hann að endurskipuleggja þrekæfingar sínar og gat til að mynda ekki tekið þátt í bílprófunum vetrarins í Barcelona.

Varaökumaður Ferrari, Antonio Giovinazzi, leysti Wehrlein af í Melbourne í Ástralíu og Sjanghæ í Kína.

mbl.is