Vettel efstur á blaði í Barein

Sebastian Vettel hjá Ferrari ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Barein. Lengst af óku Mercedesmenn hraðast en Lewis Hamilton endaði með tíunda besta tímann og Valtteri Bottas  þann fjórtánda.

Það var eitthvað annað en skortur á eknum hringjum sem olli niðurstöðunni því þeir Hamilton og Bottas óku fleiri hringi en nokkrir aðrir ökumenn. 

Næst hraðast fór Daniel Ricciardo á Red Bull og í þriðja sæti varð félagi hans Max Verstappen. Vettel fór best á 1:32,697 mínútum og var 0,4 sekúndum fljótari í förum en Ricciardo (1:33,097) og 0,9 sekúndum á undan  Verstappen (1:33,566).  

Besti hringur Hamiltons mældist 1:34,636 mín. og besti hringur Bottas 1:35,002 mín.

Aðrir í hópi tíu fljótustu - í réttri röð - voru Sergio Perez á Force India, Felipe Massa og Lance Stroll á Williams, Esteban Ocon á Force India, Fernando Alonso á McLaren og Romain Grosjean á Haas sem var 0,1 sekúndu fljótari í níunda sæti en Hamilton í því tíunda. 

mbl.is