Bottas fljótastur en klessti

Valtteri Bottas í Suzuka á tali við liðsstjórann Toto Wolff.
Valtteri Bottas í Suzuka á tali við liðsstjórann Toto Wolff. AFP

Valtteri Bottas á Mercedes ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Suzuka en klessti um síður á öryggisvegg. Næstfljótastur var liðsfélagi hans Lewis Hamilton og þriðja besta tímann setti Sebastian Vettel á Ferrari.

Bottas og Hamilton voru báðir undir besta tíma gærdagsins sem Vettel átti. Besti hringur Bottas mældist 1:29,055 mínútur og tími Hamiltons var aðeins 14 þúsundustu úr sekúndu lakari. Vettel var svo 0,3 sekúndum á eftir Bottas.

Í sætum fjögur til tíu - í réttri röð - urðu Max Verstappen og Daniel Ricciardo á Red Bull, Esteban Ocon á Force India, Nico Hülkenberg á Renault, Fernando Alonso á McLaren, Sergio Perez á Force India og Jolyon Palmer á Renault.

mbl.is