Nýliðinn maður dagsins

Þótt Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen hafi tryggt Ferrari tvö fremstu sætin í tímatökunni í Barein, sem lauk rétt í þessu, þá er franski nýliðinn Pierre Gasly á Toro Rosso maður dagsins. Hefur hann keppni af fimmta rásstað á morgun.

Vettel vann sinn 51. ráspól á ferlinum en það var ekki fyrr en í síðustu tímatilraun sem hann vann sig fram úr Räikkönen.  Að lokum munaði aðeins 0,1 sekúndu á topphringjum þeirra. Var þetta í fyrsta sinn frá árinu 2007, eða í rúman áratug, sem Ferrari vinnur ráspólinn í Sakhir-eyðimörkinni.

Sömuleiðis verður þetta í fyrsta sinn sem Räikkönen hefur keppni í Barein af fremstu rásröð. Landi hans Valtteri Bottas hreppti þriðja rásstað og var einungis 23 þúsundustu úr sekúndu á eftir Räikkönen.

Lewis Hamilton hjá Mercedes varð fjórði en vegna afturfærslu um fimm sæti vegna gírkassaskipta hefur hann keppni á morgun í níunda sæti.

Daniel Ricciardo hjá Red Bull varð fimmti en liðsfélagi hans Max Verstappen flaug út úr brautinni og klessti bílinn á öryggisvegg í lok fyrstu lotu og féll úr leik. Hefur hann keppni í 15. sæti.

Pierre Gasly lét heldur betur til sín taka á Toro Rosso bílnum og var meðal fremstu manna allar loturnar þrjár. Hann varð heimsmeistari í GP2 formúlunni árið 2016 og í öðru sæti í bæði Súperformúlunni svonefndu og Renault 3.5 formúlunni í fyrra. Hann hóf keppni í formúlu-1 í Malasíukappakstrinum í október í fyrra og keppti í fimm af síðustu sex mótum vertíðarinnar. 

Gasly hefur keppni af fimmta rásstað, sem er hans langbesti árangur og við hlið hans verður Daninn Kevin Magnussen á Haas-bíl. ánæstu rásröð fyrir aftan, þeirri fjórðu, verður Nico Hülkenberg á Renault og Esteban Ocon á Force India.  Og á fimmtu rásröðinni verða svo Hamilton og Carlos Sainz á Renault.

mbl.is