Loka fyrir olíubrennslu

Lokað hefur verið smugu í regluverki formúlu-1 þann veg að nú geta liðin ekki látið vélar keppnisbílanna brenna olíu til viðbótar bensíni til að auka afl þeirra.

Með breytingunni er tekið fyrir að liðin geti bætt olíu á bílana fyrir tímatökuna eða flytja olíu milli tanka í bílnum í þeim tilgangi að auka afl þeirra.

Mál þetta blossaði upp í fyrsta móti ársins í Melbourne í Ástralíu eftir að Lewis Hamilton vann ráspólinn með 0,7 sekúndna forskoti á næsta mann. Grunur lék strax á að Mercedesliðið hafi beitt sérstakri stillingu, „partí-hamnum“, til að bæta afl bíls Hamiltons.

Áður var búið að  loka fyrir þennan möguleika í keppninni sjálfri en ekki tímatökunni, eins og nú hefur verið gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert