Kimi sló öll Monzamet

Í tímatökunni í Monza í dag gerði Kimi Räikkönen á Ferrari sér lítið fyrir og setti brautarmet. Ekki nóg með heldur var um að ræða hraðasta hring nokkru sinni í tímatökum í formúlu-1.

Räikkönen sló 14 ára gamalt brautarmet Juan Pablo Montoya í Monza, sett 11. september 2004. Ók hann á 1:19,525 mínútum á Williamsbíl með V10 vél frá BMW. Var það á  sínum tíma jafnframt hraðasti tímatökuhringur í sögu formúlunnar, meðalhraðinn mældist 262,242 km/klst. Räikkönen bætti metið í dag um 0,406 sekúndur og ók á 1:19,119 mín., sem þýðir að meðalhraði hans var 263,587 km/klst.

Við upphaf lokalotu tímatökunnar lá fyrir að þrír fremstu menn, Räikkönen, Sebastian Vettel og Lewis Hamilton, voru aðeins um tíunda úr sekúndu frá því að slá met Montoya.

Hamilton ógnaði Ferrarimönnunum á heimavelli ítalska liðsns og setti hraðasta hring fyrri tímatilraunar í lokalotunni, ók á 1:19,390 mínútum.
Í lokaatlögunni fór hann fyrstur þremenninganna út í brautina og bætti um betur, ók á 1:19,294 mín.  Fór  nú um áhorfendur sem óttuðust að Mercedesmaðurinn væri að leggja Ferrariliða að velli.

En Adam var ekki lengi í paradís, aðeins nokkrum sekúndum eftir að Hamilton ók yfir endamarkslínuna var komið að Vettel sem bætti metið í 1:19,280 mín. Léttist nú brúnin á áhorfendum sem langflestir voru á bandi heimaliðsins, Ferrari.

Met Vettels stóð sömuleiðis aðeins í nokkrar sekúndur því Räikkönen hafði tekist að hanga í kjalsogi hans og náð þannig meiri hraða. Lokatilraun hans hljóðaði upp á 1:19, 119 mín.

Vallteri Bottas á Mercedes blandaði sér eiginlega aldrei í slaginn um ráspólinn en í lokatilrauninni komst hann nálægt toppmönnunum þremur með hring sem mældist 1:19,656 mín. Var sá tími aðeins rúmlega 0,1 sekúndu lakari en mettími Montoya (1:19,525) á sínum tíma.

mbl.is