Nefbroddinum á undan

Kimi Räikkönen á Ferrari ók hraðast á seinni æfingu dagsins í Singapúr en Lewis Hamilton á Mercedes var þó aðeins 11 þúsundustu úr sekúndu lengur með brautarhringinn.

Í þriðja og fjórða sæti urðu Red Bull félagarnir Max Verstappen og Daniel Ricciardo. Sé eitthvað tímana að marka virðist stefna í slag Ferrari og Mercedes í kappakstri sunnudagsins því bílar Red Bull voru meira en hálfri sekúndu lengur með hringinn en tveir fyrstu menn.

Slíkt yrði austurríska liðinu vonbrigði því það hefur gert sér vonir um að geta keppt af alvöru um sigur á sunnudag.

Valtteri Bottas á Mercedes átti fimmta besta hringinn en Sebastian Vettel kláraði ekki sinn topphring þar sem hann líkti eftir tímatöku. Rakst hann utan í brautarvegg í 21. beygju og hélt rakleiðis inn að bílskúr sínum. Kom þar í ljós leki úr vatnskassa og þar með var frekari akstur úr sögunni en besti tími hans fram að óhappinu dugði aðeins í níunda sæti á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar.

Carlos Sainz á Renault varð sjötti, Romain Grosjean á Haasa sjöundi, Fernando Alonso á McLaren áttundi og Nico Hülkenberg á Renault varð svo tíundi.

mbl.is