Verstappen fljótastur í Sao Paulo

Max Verstappen tók þráðinn upp frá því sem honum sleppti ...
Max Verstappen tók þráðinn upp frá því sem honum sleppti í Mexíkó. AFP

Max Verstappen á Red Bull átti hraðasta hring fyrstu æfingar keppnishelgarinnar í Sao Paulo í Brasilíu, en henni var að ljúka í þessu. Næstfljótast fór Sebastian Vettel á Ferrari og þriðja besta tímann átti Lewis Hamilton á Mercedes.

Mjótt var á munum milli þessara þriggja. Besti hringur Verstappen mældist 1:09,011 mínútur, Vettel var 49 þúsundustu úr sekúndu á eftir og Hamilton 96 þúsundustu.

Í sætum fjögur til tíu á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar urðu - í þessari röð - Daniel Ricciardo á Red Bull, Kimi Räikkönen á Ferrari, Valtteri Bottas á Mercedes, Romain Grosjean og Kevin Magnussen á Haas, Charles Leclerc á Sauber og Esteban Ocon á Force India.

Einkennandi fyrir æfinguna var veikt veggrip sem leiddi til þess að ökumenn læstu hjólum ótt og títt æfinguna út í gegn sem bitnaði enn frekar á gæðum dekkjana. 

Dekkjastjóri Mercedes gerir dekkin klár fyrir æfinguna í Sao Paulo. ...
Dekkjastjóri Mercedes gerir dekkin klár fyrir æfinguna í Sao Paulo. Eftir æfinguna lágu mörg dekk ónýt í valnum. AFP
mbl.is