Hamilton efstur á síðustu mótsæfingu ársins

Lewis Hamilton á ferð á æfingu í Abu Dhabi.
Lewis Hamilton á ferð á æfingu í Abu Dhabi. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Abu Dhabi og þar með síðustu æfingu mótshelgar á keppnistíð ársins.

Í næstu tveimur sætum urðu Kimi Räikkönen og Sebastian Vettel á Ferrari en þeir voru 0,3 og 0,4 sekúndum lengur með sinn besta hring en Hamilton.

Í fjórða til sjötta sæti urðu Max Verstappen á Red Bull, Valtteri Bottas á Mercedes og Daniel Ricciardo, sem var rúmum 0,9 sekúndum lengur í förum en heimsmeistarinn Hamilton.

Fyrri tug lista yfir hröðustu hringi fylltu svo Romain Grosjean á Haas, Nico Hülkenberg og Carlos Sainz á Renault og Esteban Ocon á Force India.

mbl.is