Hörkuslagur milli liðsfélaganna

Lewis Hamilton á ferð í tímatökunni í Monza.
Lewis Hamilton á ferð í tímatökunni í Monza. AFP

Tímatöku ítalska kappakstursins í Monza var að ljúka í þessu og einkenndist hún af rammri rimmu liðsfélaganna hjá Mercedes, Lewis Hamiltons og Valtterys Bottas, og féll brautarmetið þrisvar á um 15 mínútum.

Að lokum munaði aðeins 69 þúsundustu úr sekúndu á Mercedesmönnunum sem voru næstum sekúndu fljótari en ökumenn annarra liða.

Þriðja besta tímanum náði Carlos Sainz á McLaren og þeim fjórða Sergio Perez á Racing Point. Max Verstappen á Red Bull hafði vanist því að vera í einu af þremur efstu sætunum en nú varð hann aðeins fimmti og aðeins 25 þúsundustu úr sekúndu á undan liðsfélaga Sainz, Lando Norris.

Í sætum sjö til tíu urðu Daniel Ricciardo á Renault, Lance Stroll á Racing Point, Alex Albon á Red Bull og Pieree Gasly á Alpha Tauri.

Fara verður langt aftur í tíman til að finna jafn lakan árangur hjá Ferrari og í dag. Liðið hefur ekki verið jafn aftarlega á merinni svo elstu menn muni. Sebastian Vettel komst ekki áfram úr fyrstu lotu og varð 17. en þátttöku Charles Leclercs lauk í annarri lotu í 13. sæti. 

Til að bæta gráu ofan á svart hjá Ferrari voru allir bílarnir sex með vél frá ítalska bílsmiðnum fallnir úr leik þegar annarri og næstsíðustu lotunni í keppninni um ráspólinn lauk.

Carlos Sainz kemur út úr bílskúr McLaren eftir tímatökuna í …
Carlos Sainz kemur út úr bílskúr McLaren eftir tímatökuna í Monza. AFP
Sebastian Vettel stendur við Parabolica beygjuna og fylgist með lokalotu …
Sebastian Vettel stendur við Parabolica beygjuna og fylgist með lokalotu tímatökunnar í Monza. Það er Lewis Hailton sem hér ekur framhjá. AFP
Lando Norris á McLaren á leið til sjötta sætis í …
Lando Norris á McLaren á leið til sjötta sætis í tímatökunni í Monza. AFP
Daniel Ricciardo hjá Renault í lokalotu tímatökunnar í Monca.
Daniel Ricciardo hjá Renault í lokalotu tímatökunnar í Monca. AFP
Langt er síðan Max Verstappen hefur verið jafn aftarlega í …
Langt er síðan Max Verstappen hefur verið jafn aftarlega í tímatöku og í Monza. AFP
mbl.is