Rússneskt íþróttafólk fórnarlömb slaufunarmenningar

Nikita Mazepin.
Nikita Mazepin. AFP

Nikita Mazepin, rússneski ökuþórinn sem var rekinn frá Formúlu-1 liðinu Haas í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, segir það ekki vera sanngjarnt að rússnesku íþróttafólki sé meinuð þátttaka í hinum ýmsu íþróttakeppnum vegna innrásarinnar.

„Ég er ekki sammála því að vera hluti af refsiaðgerðum og ég hef áður sagt að ég hyggst berjast gegn þeim.

Líklega er þetta ekki rétti tímapunkturinn því ef þú skoðar það sem er að gerast fyrir íþróttafólk almennt er þetta slaufunarmenning gagnvart landinu mínu,“ sagði Mazepin í sjónvarpsþættinum HARDtalk á BBC.

Nikita er sonur Dmitry Mazepin, milljarðamærings og ólígarka, sem var í refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn honum lýst sem hluta af innsta hring Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Fundaði Dmitry til að mynda með Pútín daginn sem innrásin hófst, 24. febrúar, til að fara yfir mögulegar refsiaðgerðir sem Rússland yrði mögulega beitt vegna hennar.

Dmitry á stóran hlut í Uralkali, rússnesku áburðarfyrirtæki sem var einn af helstu styrktaraðilum hins bandaríska Haas-liðs.

Þrátt fyrir tengsl Dmitry við Pútín sagði Nikita: „Einu tengsl mín við forseta landsins míns eru í gegnum íþróttina sem ég iðka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert