Gæti verið látinn fara frá McLaren

Daniel Ricciardo.
Daniel Ricciardo. AFP/Andrej Isakovic

Þriggja ára samningi ástralska aksturskappans Daniels Ricciardos við McLaren gæti verið sagt upp áður en hann rennur sitt skeið á næsta ári vegna slakrar frammistöðu hans á síðasta tímabili og enn slakari á yfirstandandi tímabili í Formúlu 1.

Liðsfélagi Ricciardos, Brestinn ungi Lando Norris, hefur skotið honum ref fyrir rass í öllum sjö tímatökum tímabilsins til þessa og unnið sér inn 48 stig á tímabilinu á meðan Ricciardo hefur aðeins unnið sér inn 11 stig.

Ricciardo er sjálfur harður á því að hann sé samningsbundinn út næsta ár en talsmenn McLaren segja að „fyrirkomulag“ séu til staðar í samningnum sem gæti gert liðinu kleift að slíta samstarfinu fyrr.

„Ég er með samning. En ég vil ekki vera í 14. Sæti. Það er ekki ástæðan fyrir því að ég keppi skulum við segja,“ sagði Ricciardo eftir kappaksturinn í Mónakó um þarsíðustu helgi.

„Það er fyrirkomulag til staðar þar sem við erum skuldbundnir hvorum öðrum og svo er líka fyrirkomulag til staðar þar sem við erum það ekki.

Ég hef rætt við Daniel um þetta, hvorki hann né liðið er að ná þeim árangri sem við vonuðumst eftir en við munum bæði halda áfram að þrýsta,“ sagði Zak Brown, framkvæmdastjóri McLaren.

mbl.is