Fimm breytingar á landsliðshópi Ólafs

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Ómar

Ólafur Jóhannesson þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta karla tilkynnti í hádeginu hvaða leikmenn hann valdi fyrir næstu tvo landsleiki gegn Hollendingum og Makedóníu í undankeppni Heimsmeistaramótsins. Leikið verður gegn Hollendingum á Laugardalsvelli laugardaginn 6. júní og gegn Makedóníu á útivelli miðvikudaginn 9. júní.

Garðar Jóhannsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Heiðar Helguson, Birkir Már Sævarsson og Stefán Gíslason koma inn í landsliðshópinn þeir léku ekki með í 2:1 tapleik Íslands gegn Skotum ytra þann 1. apríl s.l. Stefán var í leikbanni í þeim leik en Garðar, Brynjar og Heiðar voru meiddir.

Heiðar glímir enn við lítilsháttar meiðsl og verður tekin ákvörðun um framhaldið hjá honum þegar nær dregur leiknum gegn Hollendingum.

Jóhann Berg Guðmundsson (AZ Alkmaar) , Birkir Bjarnason (Viking), Ármann Smári Björnsson (Brann), Davíð Þór Viðarsson (FH) og Veigar Páll Gunnarsson (Nancy) detta út úr hópnum en sá síðastnefndi er meiddur. 

Hópurinn er þannig skipaður: 

Markverðir: Árni Gautur Arason (Odd/Grenland), Gunnleifur Gunnleifsson (Vaduz).
Varnarmenn: Hermann Hreiðarsson (Portsmouth), Indriði Sigurðsson (Lyn), Kristján Örn Sigurðsson (Brann), Grétar Rafn Steinsson (Bolton), Bjarni Ólafur Eiríksson (Valur), Ragnar Sigurðsson (IFK Gautaborg), Sölvi Geir Ottesen Jónsson (SønderjyskE).
Miðjumenn: Brynjar Björn Gunnarsson (Reading), Stefán Gíslason (Brøndby), Emil Hallfreðsson (Reggina), Birkir Már Sævarsson (Brann), Aron Einar Gunnarsson (Coventry), Pálmi Rafn Pálmason (Stabæk), Helgi Valur Daníelsson (Elfsborg), Theódór Elmar Bjarnason (Lyn), Eggert Gunnþór Jónsson (Hearts).
Sóknarmenn: Eiður Smári Guðjohnsen (Barcelona), Heiðar Helguson (QPR), Arnór Smárason (Herenveen), Garðar Jóhannsson (Fredrikstad).

Holland er í efsta sæti riðilsins og hefur sigrað í öllum fimm leikjum sínum til þessa.  Með sigri gulltryggir hollenska liðið sér sæti í úrslitakeppni HM 2010 í Suður Afríku.  Ísland er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig eftir fimm leiki.  Skotar eru í öðru sæti með sjö stig.

mbl.is