Nýliðinn innsiglaði sigur Íslands í Andorra

Jóhann Berg Guðmundsson kom Íslendingum í 1:0.
Jóhann Berg Guðmundsson kom Íslendingum í 1:0. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingar unnu sanngjarnan og öruggan 2:0 sigur á Andorra en þjóðirnar áttust við í vináttuleik í Andorra í kvöld. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði fyrra mark Íslands á 13. mínútu og nýliðinn Rúnar Már Sigurjónsson bætti við öðru marki á 59. mínútu.

Íslendingar höfðu undirtökin allan tímann og sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri. Þetta var fimmti sigur Íslands á Andorra í jafnmörgum leikjum og markatalan í þessum leikjum er samanlagt, 14:0.

Bein textalýsing frá leiknum.

90+3 Leiknum er lokið með sannfærandi sigri Íslands, 2:0.

90+2 Rúnar Már átti góða tilraun en hann átti gott skot úr aukaspyrnu og fór boltinn rétt framhjá.

90. Venjulegum leiktíma er lokið en það 2-3 mínútur í uppbótartíma.

87. Andorramenn eru að reyna að klóra í bakkann en þeim verður lítt ágengt á móti íslensku vörninni sem hefur staðið vaktina vel.

82. Og það var eins við manninn mælt. Jón Daði er kominn inná fyrir Matthías Vilhjálmsson.

80. Það stefnir allt í íslenska sigur en staðan er, 2:0, í leik sem Íslendingar hafa haft undirtökin í allt frá fyrstu mínútu. Nú bíðum við bara eftir því að hinn ungi og efnilegi Jón Daði Böðvarsson komi inná í sínum fyrsta landsleik.

76. Varamaðurinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson átti skot sem markvörður Andorra varði en Arnór fékk skallasendingu frá Garðari Jóhannssyni.

74. Helgi Valur Daníelsson, sem tók við fyrirliðabandinu í hálfleiknum, átti ágæt færi en skot hans var varið.

64. Skipting hjá íslenska liðinu. Jóhann Berg Guðmundsson fer af velli fyrir Garðar Jóhannsson. Garðar fer í framherjastöðuna og Birkir Bjarnason færir sig út á vinstri kantinn. Þá á Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson bara eftir að fá að spreyta sig en hann er nýliði eins og Rúnar Már Sigurjónsson.

62. Stöng!! Íslendingar eru aðgangsharðir þessar mínútur og minnstu munaði að Ólafur Ingi Skúlason næði að bæta þriðja markinu við en skot hans fór í stöngina.

59. MARK!! Íslendingar eru komnir í 2:0. Nýliðinn Rúnar Már Sigurjónsson skoraði með glæsilegu skoti eftir að hafa leikið á tvo varnarmenn Andorra. Glæsileg byrjun hjá Rúnari sem var í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

49. Brotið var á Matthíasi rétt við vítateigslínuna. Jóhann Berg tók aukaspyrnuna en boltinn fór beint á markvörðinn.

46. Matthías Vilhjálmsson fær að líta gula spjaldið eftir 5 sekúndna leik í seinni hálfleik.

46. Lars Lagerbäck gerði fjórar breytingar á íslenska liðinu í hálfleiknum. Hannes Þór Halldórsson, Hjörtur Logi Valgarðsson, Hjálmar Jónsson og Aron Einar Gunnarsson fara af velli fyrir Gunnleif Gunnleifsson, Arnór Svein Aðalsteinsson, Indriða Sigurðsson og Helga Val Daníelsson, sem tekinn við fyrirliðabandinu.

46. Síðari hálfleikurinn er hafinn.

45. Hálfleikur. Staðan er 1:0 Íslendingum í vil með marki Jóhanns Bergs Guðmundssonar. Reikna með má nokkrum skiptingum í hálfleiknum. Varamenn Íslands eru sex að tölu og heimilaðar eru sex skiptingar svo reikna má með að allir fái tækifæri.

40. Hannes Þór Halldórsson markvörður íslenska landsliðsins hefur haft það náðugt í kvöld en hann var rétt í þessu að grípa boltann eftir langskot heimamanna.

35. Andorramenn fengu fyrstu hornspyrnu leiksins og eftir smá darraðadans í vítateignum náði Jóhann Berg að hreinsa boltanum í burtu.

30. Staðan er enn 1:0 Íslendingum í vil. Íslenska liðið hefur haft góð tök á leiknum en forystan er naum gegn smáliðinu sem er í 203. sæti á heimslista FIFA af 207 þjóðum.

26. Sölvi Geir er enn að gera sig líklegan upp við mark Andorra. Kollspyrna hans eftir langt innkast Arons fyrirliða endaði í fangi markvarðar Andorra. Völlurinn er orðinn töluvert þungur eftir rigningu síðustu daga. Það er þó þurrt í veðri í kvöld.

24. Íslendingar náðu hættulegu upphlaupi sem endaði með sendingu fyrir markið frá Rúnari Má en hún rataði ekki á leikmann Íslands.

17. Knattspyrnusamband Andorra bauð upp á beina útsendingu á vef sínum en hún varaði ekki lengi. Fram kemur á facebook síðu KSÍ að því miður verði að hætta við útsendinguna frá leiknum, þar sem ekki hafði verið gengið frá sjónvarpsréttindum.

15. Íslendingar hafa ráðið ferðinni fyrsta stundarfjórðunginn og vonandi er stutt í að annað mark líti dagsins ljós hjá íslenska liðinu. Sölvi Geir fékk annað færi en eftir langt innkast frá Sölva Geir skallaði miðvörðurinn yfir markið.

13. MARK!! Íslendingar eru komnir í 1:0. Markið skoraði Jóhann Berg Guðmundsson. Hann fékk sendingu frá Hirti Loga, lék á markvörðinn og renndi boltanum í netið. Þetta er fyrsta mark Jóhanns Berg með A-landsliðinu en hann er spila sinn 22. landsleik.

12. Sölvi Geir Ottesen fékk gott færi en hann hitti boltann illa og boltinn fór framhjá markinu.

8. Andorra átti fyrsta færi leiksins en heimamenn fengu boltann eftir misheppnaða hreinsun frá Hirti Loga en skotið fór framhjá.

5. Íslendingar hafa strax tekið frumkvæðið í leiknum og pressa heimamenn ofarlega á vellinum.

1. Leikurinn er hafinn

Byrjunarlið Íslands (4:4:2): Hannes Þór Halldórsson - Birkir Már Sævarsson, Sölvi Geir Ottesen, Hjálmar Jónsson, Hjörtur Logi Valgarðsson - Rúnar Már Sigurjónsson, Aron Einar Gunnarsson, Ólafur Ingi Skúlason, Jóhann Berg Guðmundsson - Matthías Vilhjálmsson, Birkir Bjarnason.

Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson, Indriði Sigurðsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Helgi Valur Daníelsson, Garðar Jóhannsson, Jón Daði Böðvarsson.

Fyrir leik:

Ísland og Andorra hafa mæst fjórum sinnum á knattspyrnuvellinum og hafa Íslendingar unnið allar viðureignir þjóðanna. Samanlögð markatala er, 12:0.

Á nýjasta styrkleikalista er Andorra í 203. sæti af þeim 207 sem eru á listanum. Ísland er í 96. sæti.

Andorra hefur spilað fjóra leiki í undankeppni HM og hefur tapað öllum leikjunum. Andorra tapaði 5:0, fyrir Ungverjalandi, 4:0 fyrir Rúmeníu, 3:0 gegn Hollandi og 1:0 á móti Eistlandi en sá leikur var fyrir mánuði síðan.

Veðrið í Andorra er ágætt að sögn Ómars Smársonar fjölmiðlafulltrúa KSÍ. Hitastigið er um 11 gráður og það er skýjað.

Þjóðarleikvangur þeirra Andorra manna er ekki sá stærsti í heimi en hann tekur aðeins um 1.300 manns í sæti.

Birkir Bjarnason leikur í fremstu víglínu.
Birkir Bjarnason leikur í fremstu víglínu. mbl.is/Ómar
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari.
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka