18 ára strákur sendi Midtjylland heim

Úr fyrri leik þessara liða.
Úr fyrri leik þessara liða. AFP

Manchester United er komið áfram í 16 liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir 5:1 sigur á Midtjylland á Old Trafford í kvöld. Það var 18 ára framherji United sem stal senunni í kvöld en sá gerði tvö mörk í fyrsta leik.

Midtjylland vann fyrri leikinn í Danmörku 2:1 og mátti því búast við hörkuleik á Old Trafford í kvöld og er óhætt að segja að áhorfendur hafi fengið allt fyrir peninginn.

Pione Sisto kom danska liðinu yfir eftir 27. mínútna leik en hann lék þá á Daley Blind og Michael Carrick áður en hann renndi boltanum í hornið. United komið í erfiða stöðu. Stuttu síðar tókst þó United að jafna er Memphis Depay lagði boltann fyrir markið en Nikolay Bodurov varð fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net.

United fékk vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks er Ander Herrera var felldur í teignum en Juan Manuel Mata lét verja frá sér. Í síðari hálfleiknum var svo komið að hinum 18 ára Marcus Rashford, sem byrjaði inni á í stað Anthony Martial sem meiddist í upphitun.

Rashford kom United yfir á 63. mínútu með skot af stuttu færi eftir sendingu frá Mata. Hann bætti svo við þriðja markinu tólf mínútum síðar er Guilermo Varela kom með fyrirgjöf sem rataði beint á Rashford sem gat ekki annað en skorað.

United fékk svo víti undir lokin er Memphis skaut í höndina á varnarmanni danska liðsins. Ander Herrara steig á punktinn og skoraði. Memphis rak svo síðasta naglann í kistuna með góðu langskoti undir lok leiksins. Rétt fyrir markið fékk Andre Romer að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Lokatölur í kvöld 5:1 United í vil. Liðið fer því áfram í 16 liða úrslitin, en engu að síður hetjuleg barátta hjá danska liðinu. Louis van Gaal getur andað aðeins léttar eftir þennan sigur, annar sigur liðsins í röð.

Leik lokið: Manchester United vinnur sannfærandi 5:1 sigur á Midtjylland og því samanlagt áfram 6:3. Frábær barátta hjá danska liðinu en það var ekki nóg gegn „gröðu“ liði United eins og Louis van Gaal myndi orða það.

90. Basel 2:1 St. Etienne. Birkir og félagar á leið áfram. Þvílík spenna samt í leiknum. Lucas Zuffi er kominn með tvö mörk en tveir leikmenn fengið að fjúka af velli. Einn úr hvoru liði.

90. MAAAAAARK!!! Man. Utd 5:1 Midtjylland. MEMPHIS DEPAY!! Hann er búinn að vera magnaður í leiknum og átti þetta líklega skilið. Gott mark fyrir utan teig, niðri í hornið. Andersen átti ekki möguleika.

89. RAUTT SPJALD!! Romer fær sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þetta er hvort sem er svo gott sem búið. Hann var slakur í þessum leik og átti ekki neitt í Memphis.

88. MAAAAAARK!!! Man. Utd 4:1 Midtjylland. ANDER HERRERA! Hann skorar örugglega og sendir Andersen í vitlaust horn. Af hverju í ósköpunum fékk Rashford ekki að taka þessa spyrnu? Þvílíkt kvöld samt hjá honum.

87. VÍTI!!!! Memphis með skot í höndina á varnarmanni Midtjylland og réttilega dæmt víti.

75. MAAAAAAAAAAAARK!!! Man. Utd 3:1 Midtjylland. RASHFORD AÐ SKORA AFTUR!!! Ég get ekki betur séð en að Varela eigi sendinguna fyrir markið og Rashford skorar örugglega. Þetta er með ólíkindum. 18 ára gamall að skora tvö mörk í fyrsta leik.

72. Lingard lætur sig falla í teignum. Þegar upptökur eru skoðaðar þá var rétt hjá dómaranum að gefa honum spjald fyrir leikaraskap.

63. Tottenham 2:0 Fiorentina. Ryan Mason og Erik Lamela að sjá til þess að Tottenham fari áfram í Evrópudeildinni. Eins og staðan er núna þá eru samanlögð úrslit 3:1 fyrir Tottenham.

63. MAAAAAAAAAAARK!!! Man. Utd 2:1 Midtjylland. MARCUS RASHFORD AÐ SKORA Í SÍNUM FYRSTA LEIK!!! Boltinn kom til Mata sem náði sendingunni við endamörk, Rashford kom á ferðinni og skoraði í autt markið. Þetta var frábært spil hjá heimamönnum sem eru nú búnir að jafna þessa viðureign.

58. Basel 1:0 St. Etienne. Birkir Bjarnason er í byrjunarliðinu hjá Basel sem er þessa stundina á leið í 16 liða úrslitin. Staðan er samanlagt 3:3, en Basel náði tveimur mörkum í Frakklandi. Vonum það besta fyrir okkar mann.

49. HERRERA!!! Hvernig fór hann að þessu? Memphis skilur varnarmann Midtjylland eftir í reyknum og kemur boltanum fyrir á Herrera sem stangar boltann framhjá á einhvern ótrúlegan hátt.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

Hálfleikur: Það er jafnt í hálfleik. Danska liðið komst yfir með góðu marki en United jafnaði með sjálfsmarki danska liðsins. United fékk gullið tækifæri til að jafna viðureignina er liðið fékk víti undir lok hálfleiksins en Andersen sá þá við Mata.

43. ANDERSEN VER FRÁ MATA!!! Mata setti boltann í vinstra hornið og Andersen sá við honum og varði í horn. Hvað er að gerast???

42. VÍTI!!!! Romer brýtur á Ander Herrera innan teigs. Réttilega dæmd vítaspyrna.

42. RASHFORD Í STÖNG!! Hann nær að skalla boltann þarna í stöngina. Frábær byrjun hjá honum.

33. MAAAAAAARK!! Man. Utd 1:1 Midtjylland. SJÁLFSMARK!! Bodurov er að koma boltanum í eigið net eftir sendingu frá Memphis. Vel gert hjá hollenska vængmanninum en grímuklæddi varnarmaðurinn klaufi þarna í vörninni. United er komið aftur inn í leikinn!

30. MEMPHIS!! Fínasta tilraun hjá Memphis en Andersen grípur þennan bolta. Danirnir eru í góðri stöðu. United þarf þrjú mörk til þess að fara beint áfram.

27. MAAAAAAAAAAARK!!! Man. Utd 0:1 Midtjylland. PIONE SISTO ER AÐ SKORA!! Hann leikur sér að Daley Blind og svo Carrick áður en hann setur hann í hornið. Þessi leikmaður verður seldur í sumar, það eru hreinar línur. Hann er magnaður.

25. Ég hef oft séð skemmtilegri leiki en vonandi fer eitthvað að rætast úr þessu. Danirnir ekki að heilla neitt sérstaklega.

16. RASHFORD!! Fínasta skot hjá honum en Andersen ver meistaralega. Drengurinn byrjar þennan leik þokkalega bara.

5. Þetta byrjar rólega. Eins og fram kom á mbl.is fyrir skömmu þá meiddist Anthony Martial í upphitun og kom Marcus Rashford því í byrjunarliðið. Það er 18 ára framherji sem er talinn afar efnilegur.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Byrjunarliðin má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert