Hverjir eru andstæðingar íslensku liðanna?

Valur og Stjarnan leika bæði í Evrópudeildinni í ár.
Valur og Stjarnan leika bæði í Evrópudeildinni í ár. mbl.is/Golli

Dregið var í fyrstu um­ferð for­keppni Evr­ópu­deild­arinnar í knattspyrnu í dag og voru alls þrjú íslensk lið í pottinum. Valur mætir Ventspils frá Lettlandi, Stjarnan fékk Shamrock Rovers frá Írlandi og KR mætir Seinäjoki frá Finnlandi.

Ventspils

Ventspils, andstæðingur Vals, varð lettneskur bikarmeistari á síðustu leiktíð eftir sigur á Ríga í úrslitaleik eftir vítaspyrnukeppni. Liðið hafnaði í 3. sæti í deildinni, annað árið í röð en liðið var lettneskur meistari tvö ár í röð þar á undan, 2013 og 2014. Liðið hefur verið í Evrópukenni síðustu 19 tímabil og komst m.a í riðlakeppni Evrópudeildarinnar árið 2009. Ventspils hefur sex sinnum orðið lettneskur meistari. 

Leikmannahópurinn samanstendur mest megins af heimamönnum, en einnig þremur leikmönnum frá Nígeríu. Englendingurinn Paul Ashworth þjálfar liðið og hefur gert svo undanfarin tvö ár. 

Jurijs Žigajevs, kantmaður á 31 leik fyrir lettneska landsliðið og miðjumaðurinn Ritvars Rugins á 24. Ģirts Karlsons er reynslumesti leikmaður Ventspils og á hann 50 landsleiki að baki og hefur hann skorað níu mörk í þeim. Eitt markanna skoraði hann í 4:0 sigri á Íslendingum í undankeppni EM 2008. FK Jelgava frá Lettlandi sló Breiðablik úr keppni á síðustu leiktíð, samanlagt 5:4. 

Ventspils leikur heimaleiki sína á Ventspils Olimpiskais-vellinum sem tekur um 3200 manns í sæti. Liðið er sem stendur í 5. sæti af átta liðum í lettnesku deildinni, átta stigum frá toppliði Jūrmalas eftir tólf umferðir.  

Frá leik Ventspils og Aberdeen í keppninni á síðustu leiktíð.
Frá leik Ventspils og Aberdeen í keppninni á síðustu leiktíð. AFP

Seinäjoki

SJK Seinäjoki varð finnskur bikarmeistari á síðustu leiktíð eftir sigur á HJK, Helsingin Jalkapalloklubi í úrslitaleik eftir vítaspyrnukeppni. Liðið hafnaði svo í 2. sæti í finnska deildabikarnum eftir tap fyrir Lahti, einnig í vítaspyrnukeppni. Loks hafnaði Seinäjoki í 3. sæti deildarinnar á eftir Finnlandsmeisturunum í IFK Mariehamn og HJK. Seinäjoki hefur einu sinni orðið finnskur meistari, 2015. 

Fyrir tveimur leiktíðum síðan féll finnska liðið úr leik gegn FH. FH vann báða leikina 1:0 og því samanlagt 2:0, en þetta er í þriðja skipti sem liðið tekur þátt í Evrópukeppni. José Manuel Roca, frá Spáni er þjálfari liðsins.

Flestir leikmenn í leikmannahópnum eru Finnar en þar má einnig finna leikmenn frá Spáni, Úrúgvæ, Brasilíu og Englandi. Miðvörðurinn Marc Vales kemur svo frá Andorra og á hann 47 landsleiki að baki. Miðjumaðurinn Matej Hradecky á einn landsleik að baki en bróðir hans Tomas Hradecky er aðalmarkmaður finnska landsliðsins. Hægri bakvörðurinn Jarkko Hurme hefur leikið flesta landsleiki fyrir Finna í hópnum, eða 11. Vinstri bakvörðurinn Chema Antón er uppalinn í Real Madrid og lék hann fyrir U19 ára landslið Spánar á sínum tíma. Mihkel Aksalu, aðalmarkmaður liðsins og fyrirliði var aðalmarkmaður eistneska landsliðsins um tíma.

Tomas Hradecky, markmaður Finna kom í viðtal við mbl.is eftir leik Íslands og Finna á Laugardalsvelli á síðasta ári og hann var allt annað en kátur.

Seinäjoki leikur heimaleiki sína á OmaSP-velinum og er leikið á gervigrasi. Hann rúmar 6000 manns. Liðið hefur ekki farið vel af stað í finnsku deildinni í ár. Eftir 14 leiki er Seinäjoki 9. sæti af tólf liðum með aðaeins 16 stig.

Finnska U21 árs landsliðið mætti því þýska á heimavelli Seinäjoki.
Finnska U21 árs landsliðið mætti því þýska á heimavelli Seinäjoki. AFP

 

Shamrock Rovers

Shamrock er sigursælasta félag sögunnar í írska fótboltanum. Liðið hefur unnið deildina þar í landi 17 sinnum og írska bikarinn 24 sinnum. Undanfarin ár hafa ekki verið þau bestu í sögu Shamrock. Liðið hafnaði í 4. sæti deildarinnar í fyrra, langt frá toppliðunum. Shamrock varð síðast Írlandsmeistari árið 2011. 

Shamrock mætti Fram á þessu stigi keppninnar 1980. Fram hafði betur á Laugardalsvelli, 2:1 en Shamrock vann öruggan 4:0 sigur á Írlandi. Shamrock komst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar tímabilið 2011/12.

Allur leikmannahópur liðsins er frá Írlandi, að undanskildum kanadíska markmanninum Tomer Chencinski og enska miðjumanninum Sam Bone. Chencinski er eini leikmaður liðsins sem hefur leikið  A-landsleik, en hann á einn landsleik að baki fyrir Kanada. Stephen Bradley þjálfar liðið, en hann lék Shamrock frá 2009-2010. 

Shamrock leikur heimavelli sína á Tallaght-vellinum í Dublin og rúmar hann 6000 manns. Þegar þremur leikjum er ólokið í írsku deildini er Shamrock í 4. sæti, 23 stigum á eftir toppliði Cork. 

Shamrock Rovers leikur í hvítu og grænu.
Shamrock Rovers leikur í hvítu og grænu. AFP

 

mbl.is