Verður Solskjær næsti þjálfari Arnórs?

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde, hefur átt í viðræðum við forráðamenn sænska úrvalsdeildarliðsins Malmö um að taka við þjálfun liðsins.

Sænska blaðið Aftonbladet greinir frá þessu en Malmö, sem er ríkjandi meistari, er í þjálfaraleit eftir að Magnus Pehrsson var rekinn frá störfum á dögunum. Með liði Malmö leikur landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason. Malmö hefur farið illa af stað og situr í 9. sæti deildarinnar eftir 11 leiki með 14 stig.

Forráðamenn Molde segjast ekkert hafa heyrt frá kollegum sínum í Malmö varðandi þessi mál en Solskjær er á sínu öðru skeiði sem þjálfari norska liðsins. Hann þjálfaði Molde fyrst frá 2011 til 2014 og varð liðið í tvígang norskur meistari og vann bikarinn og hann tók svo aftur við þjálfun liðsins í október 2015 eftir að hafa verið rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Cardiff. Molde fór vel af stað á þessu tímabili en hallað hefur undan fæti síðustu vikurnar og er liðið í 8. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert