Márquez dregur sig í hlé

Rafael Márquez á æfingu í Rússlandi í sumar.
Rafael Márquez á æfingu í Rússlandi í sumar. AFP

Mexíkóski knattspyrnumaðurinn Rafael Márquez hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir 21 ár í landsliðinu og 22 ára farsælan feril í Mexíkó, Frakklandi, Spáni, Bandaríkjunum og Ítalíu. Hann tilkynnti þetta á twitter í gærkvöld.

Márquez, sem er 39 ára gamall, lék sinn 147. og síðasta landsleik þegar Mexíkó var slegið út af Brasilíu í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi um síðustu mánaðamót. Hann er 39 ára gamall og hafði leikið með landsliðinu frá 1997, er þriðji leikjahæstur í sögu þess, en Márquez spilaði sinn fyrsta landsleik ári eftir að hann hóf meistaraflokksferilinn með félagi sínu Atlas frá borginni Guadalajara, en þar hefur hann einnig spilað tvö undanfarin ár.

Lengst lék Márquez með Barcelona en hannn spilaði 163 deildaleiki með Katalóníuliðinu frá 2003 til 2010, var þar samherji Eiðs Smára Guðjohnsen í þrjú ár, og varð þar fjórum sinnum spænskur meistari og vann Meistaradeild Evrópu í tvígang. Þá vann hann franska meistaratitilinn með Mónakó árið 2000 og mexíkóska meistaratitilinn með León árið 2014. 

Márquez lék á sínu fimmta heimsmeistaramóti í sumar og það hafa aðeins tveir aðrir afrekað í sögu HM. Hann var elsti útispilarinn á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert