Ósáttir við hegðun Mourinho í leikslok

Leonardo Bonucci og Paulo Dybala voru ekki sáttir við hegðun …
Leonardo Bonucci og Paulo Dybala voru ekki sáttir við hegðun Mourinho í leikslok. AFP

Paul Scholes, fyrrverandi miðjumaður Manchester United og núverandi starfsmaður BT-sjónvarpsstöðvarinnar, var ekki sáttur við látbragð José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, eftir 2:1-sigur á Juventus í Meistaradeildinni í kvöld. 

Cristiano Ronaldo kom Juventus yfir í seinni hálfleik en jöfnunarmark Juan Mata og sjálfsmark undir lokin tryggðu sterkan sigur United. Þegar flautað var til leiksloka fór Mourinho inn á völlinn og ögraði stuðningsmönnum Juventus með að halda um eyrað á sér. 

„Svona er hann, hvert sem hann fer. Þú verður að sýna virðingu þegar þú vinnur. Taktu í höndina á hinum stjóranum. Þetta er algjör óþarfi, en svona er hann,“ sagði Scholes í leikslok.

Dion Dublin, einnig fyrrverandi leikmaður Manchester United, tók í sama streng. „Það var algjör óþarfi hjá Mourinho að gera þetta. Leikmenn voru að takast í hendur og ræða saman og allt í einu stelur Mourinho senunni,“ sagði Dublin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert