Okkur var refsað

Cristiano Ronaldo reif upp skyrtuna og sýndi magavöðvana flottu þegar ...
Cristiano Ronaldo reif upp skyrtuna og sýndi magavöðvana flottu þegar hann skoraði. AFP

Cristiano Ronaldo skoraði frábært mark fyrir Ítalíumeistara Juventus gegn sínu gamla liði, Manchester United, þegar liðin áttust við í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Mark Ronaldos á 65. mínútu stefndi í að verða sigurmark leiksins en United skoraði tvö mörk á síðustu fimm mínútum leiksins og tryggði sér sætan sigur.

„Við réðum ferðinni í 90. mínútur. Við fengum tvö eða þrjú dauðafæri og við hefðum átt að vera búnir að gera út um leikinn auðveldlega en okkur var refsað fyrir að slökkva á okkur,“ sagði Ronaldo eftir fyrsta tap Juventus á leiktíðinni.

„Það er aldrei gaman að tapa en kannski kom þessi ósigur á besta mögulega tíma. Við erum með frábært lið, við erum á toppi riðilsins og ég er sannfærður um að við vinnum riðilinn,“ sagði Ronaldo, sem hefur nú skorað 121 mark í 156 leikjum í Meistaradeildinni. Sturluð tölfræði það!

mbl.is