Evrópumeistararnir tóku stórt skref að HM

Sherida Spitse fagnar marki sínu gegn Sviss í kvöld.
Sherida Spitse fagnar marki sínu gegn Sviss í kvöld. AFP

Evrópumeistarar Hollands unnu glæsilegan 3:0-sigur á Sviss í fyrri leik liðanna í umspili um síðasta lausa sæti Evrópuþjóða á HM kvenna í knattspyrnu. HM fer fram í Frakklandi næsta sumar.

Sherida Spitse kom Hollandi yfir í kvöld á 49. mínútu og Lieke Martens jók muninn í 2:0 á 71. mínútu. Vivianne Miedema skoraði svo mikilvægt þriðja mark þegar tíu mínútur voru til leiksloka, og nú þarf Sviss að vinna upp þriggja marka forskot þegar liðin mætast í Sviss næsta þriðjudag.

Stórt skarð var fyrir skildi hjá Sviss þar sem Ramona Bachmann tók út leikbann en hún verður með í seinni leiknum. Þá sleit Lara Dickenmann, liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg, krossband í hné í haust.

Íslenska landsliðið var hársbreidd frá því að komast í fjögurra liða umspilið um sæti á HM en missti af því. Auk Hollands og Sviss voru það Danmörk og Belgía sem komust í umspilið, en Holland sló svo Danmörku út og Sviss sló Belgíu út.

Lieke Martens skoraði annað mark Hollands í kvöld.
Lieke Martens skoraði annað mark Hollands í kvöld. AFP
mbl.is