Alfreð og Kristófer á skotskónum

Alfreð Finnbogason skoraði tvö mörk fyrir Augsburg.
Alfreð Finnbogason skoraði tvö mörk fyrir Augsburg. AFP

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, átti afar góðan leik fyrir þýska liðið Augsburg er það mætti Antwerpen frá Belgíu í æfingaleik á Spáni í dag. Leiknum lauk með 3:0-sigri Augsburg og skoraði Alfreð tvö mörk. 

Alfreð var fyrirliði Augsburg í leiknum, en liðið er í æfingabúðum í Alicante. Þýska deildin er sem stendur í fríi þangað til 19. janúar. Alfreð og félagar fá Dusseldorf í heimsókn í fyrsta leik eftir fríið. 

Kristófer Ingi Kristinsson átti svo góðan leik fyrir Willem II sem mátti þola 3:2-tap fyrir stórliði Dortmund í æfingaleik í Marbella á Spáni. Kristófer skoraði eitt mark og lagði upp hitt markið hjá Willem. 

Þá skoraði Rúrik Gíslason fyrsta mark þýska liðsins Sandhausen sem vann tyrkneska úrvalsdeildarliðið Antalyaspor, 3:0, í æfingaleik í gær.

mbl.is