„Þetta verður geggjað“

Arnór Ingvi í leik með Malmö á Spáni í síðustu …
Arnór Ingvi í leik með Malmö á Spáni í síðustu viku. Ljósmynd/Malmö FF

Það er sannkallaður stórleikur í vændum hjá Arnóri Ingva Traustasyni og samherjum hans í sænska liðinu Malmö en þeir taka á móti Chelsea í fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á morgun.

„Það er svakaleg stemning hér í Malmö fyrir leiknum. Þetta verður geggjað og það er ekkert smá gaman að byrja tímabilið með svona leik,“ sagði Arnór Ingvi við mbl.is en hann var þá á leið á síðustu æfingu Malmö-liðsins fyrir leikinn.

Keppnistímabilið í sænsku úrvalsdeildinni hefst um næstu mánaðamót en Arnór og félagar hans hituðu upp fyrir leikinn með því að spila þrjá æfingaleiki á móti rússneskum liðum á Marbella á Spáni í síðustu viku. Þeir spiluðu tvo leiki við Krasnodar þar sem þeir töpuðu 2:0 og gerðu 1:1 jafntefli og þeir gerðu síðan markalaust jafntefli á móti Dinamo Kiev.

Eigum góða möguleika á heimavelli

Chelsea-liðið er í sárum eftir að hafa steinlegið fyrir Englandsmeisturum Manchester City 6:0 um síðustu helgi en Arnór segir að þau úrslit telji ekkert þegar út í leikinn kemur annað kvöld.

„Það vita allir að gæðin eru mikil hjá Chelsea og það má alveg búast við því að leikmenn þeirra vilji svara fyrir sig eftir þann skell. Þeir mæta eflaust tvíefldir til leiks. Ég tel að við eigum góða möguleika á móti Chelsea og sérstaklega á okkar heimavelli. Það verður troðfullur völlur og það er alltaf gaman spila undir þannig kringumstæðum í Malmö. Við ætlum að gera okkar besta til að stríða Chelsea-liðinu. Það var gott að fá þessa leiki á Spáni í síðustu viku og miðað við stuttan undirbúning þá erum við búnir að ná upp ágætu keppnisformi,“ sagði Arnór Ingvi.

Ekki var búið að tilkynna byrjunarliðið þegar mbl.is spjallaði við Arnór. „Það kemur allt í ljós á æfingunni á eftir hvernig við stillum liðinu upp en ég vona að ég byrji inni á,“ sagði Arnór, sem hefur verið spila inni á miðjunni (í áttunni) í 3-5-2 leikkerfi Malmö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert