Áfall fyrir Bayern München

Kingsley Coman haltraði af velli gegn Augsburg í þýsku 1. ...
Kingsley Coman haltraði af velli gegn Augsburg í þýsku 1. deildinni í gær en hann var besti maður vallarsins í leiknum. AFP

Útlit er fyrir að Kingsley Coman, sóknarmaður þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, muni missa af fyrri leik liðsins gegn Liverpool í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fram fer á Anfield í Liverpool á þriðjudaginn kemur. 

Coman átti mjög góðan leik fyrir Bayern í gær þegar liðið vann 3:2-sigur gegn Augsburg í þýsku 1. deildinni en Coman skoraði tvö mörk í leiknum og lagði upp sigurmark David Alaba á 53. mínútu. Í uppbótartíma haltraði Coman af velli og þar sem Bayern var búið með allar skiptingarnar sínar þurfti liðið að klára leikinn með tíu menn inn á vellinum. 

Ekki hefur ennþá verið staðfest hversu alvarleg meiðslin eru en þýskir fjölmiðlar fullyrða að Coman muni missa af leiknum gegn Liverpool. Coman hefur spilað mjög vel fyrir Bayern á þessari leiktíð og hefur skoraði fimm mörk og lagt upp eitt mark í 15 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.

mbl.is