„Hef ekki áhyggjur“

Fowler með treyju Brisbane Roar.
Fowler með treyju Brisbane Roar. Ljósmynd/Brisbane Roar

Liverpool-goðsögnin Robbie Fowler er tekinn við þjálfun ástralska knattspyrnuliðsins Brisbane Roar og skrifaði í nótt að íslenskum tíma undir tveggja ára samning við félagið.

„Ég hlakka til að takast á við þessa áskorun og ég er staðráðinn í að færa liðinu, sem hefur svo stolta sögu í áströlsku A-deildinni, velgengni,“ sagði Fowler eftir að hann skrifaði undir samninginn við Brisbane Roar, sem er í 9. sæti í deildinni og hefur aðeins unnið fjóra leiki af 26.

Samkvæmt heimildum Fox Sports var Fowler valinn fram yfir 100 þjálfara sem sóttust eftir starfinu en liðið hefur verið án aðalþjálfara frá því Ástralinn John Aloisi lét af störfum hjá félaginu í desember.

„Ég veit að menn munu tala um litla reynslu hjá mér í þjálfun en ég hef ekki áhyggjur, þú öðlast reynsluna í starfinu,“ sagði Fowler, sem er 44 ára gam­all og skoraði 189 mörk í 369 leikj­um fyr­ir Li­verpool á árum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert