María með en ekki sú besta í heimi

María Þórisdóttir var með Noregi á EM í Hollandi fyrir …
María Þórisdóttir var með Noregi á EM í Hollandi fyrir tveimur árum en þá stóð liðið ekki undir væntingum. mbl.is/Sindri

María Þórisdóttir er líkt og búast mátti við í norska landsliðshópnum sem leikur á HM í knattspyrnu í Frakklandi í sumar.

María, sem leikur með Chelsea í Englandi, er 25 ára gömul og var einnig með Noregi á síðasta heimsmeistaramóti, í Kanada fyrir fjórum árum. Hún lék sömuleiðis með Noregi á EM í Hollandi fyrir tveimur árum en þá olli liðið vonbrigðum og komst ekki upp úr sínum riðli. María, sem er dóttir Þóris Hergeirssonar þjálfara kvennalandsliðs Noregs í handbolta, er fædd og uppalin í Noregi en hefur alltaf haldið tengingu við Ísland og talar reiprennandi íslensku.

Besta knattspyrnukona heims að margra mati, Ada Hegerberg sem hlaut Gullknöttinn á síðasta ári, hætti í landsliðinu eftir EM í Hollandi og hefur ekki spilað með því síðan. Hún hætti vegna óánægju með norska knattspyrnusambandið og þá umgjörð sem væri um kvennalandsliðið, og hefur ekki séð ástæðu til að snúa aftur. Hún er því ekki í hópnum sem fer á HM í Frakklandi.

Í hópnum eru hins vegar leikmenn á borð við Caroline Graham-Hansen og Kristine Minde, sem í gær urðu þýskir bikarmeistarar með Söru Björk Gunnarsdóttur og liði Wolfsburg, sem og Frida Maanum sem leikur með Önnu Rakel Pétursdóttur hjá Linköping í Svíþjóð, og Lisa-Marie Karlseng Utland sem leikur með Glódísi Perlu Viggósdóttur hjá Rosengård.

Norski hópurinn: Ingrid Hjelmseth, Cecilie Fiskestrand, Oda Marie Bogstad, María  Þórisdóttir, Maren Mjelde, Stine Hovland, Synne Skinnes Hansen, Kristine Minde, Cecilie Redisch Kvamme, Ingrid Moe Wold, Frida Maanum, Vilde Bøe Risa, Ingrid Syrstad Engen, Therese Sessy Åsland, Amalie Vevle Eikeland, Emilie Haavi, Guro Reiten, Karina Sævik, Caroline Graham Hansen, Isabell Herlovsen, Lisa-Marie Karlseng Utland, Emilie Mautnes, Elise Thorsnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert