Ekkert í líkingu við knattspyrnu

Phil Neville var allt annað en sáttur með hegðun leikmanna …
Phil Neville var allt annað en sáttur með hegðun leikmanna Kamerún í sextán liða úrslitum HM í gær. AFP

Phil Neville, landsliðsþjálfari enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var allt annað en sáttur með hegðun leikmanna Kamerún eftir 3:0-sigur enska liðsins í sextán liða úrslitum HM á Hairnaut-vellinum í Valenciennes í Frakklandi í gær. Leikmenn Kamerún voru mjög ósáttir með VAR-myndbandsdómgæsluna í leiknum og lá við að afríska liðið myndi ganga af velli á ákveðnum tímapunkti í leiknum. 

„Þetta var ekki eins og leikur í sextán liða úrslitum á HM. Við sáum ákveðna hegðun frá mörgum leikmönnum í leiknum sem á ekki að sjást á heimsmeistaramóti. Ég skammast mín fyrir hegðun mótherja enska liðsins og þeir ættu líka að skammast sín. Ef leikmenn mínir hefðu hagað sér svona þá myndu þeir aldrei spila fyrir mig aftur, svo einfalt er það,“ sagði Neville í samtali við BBC eftir leik.

„Á ákveðnum tímapunkti héldum við að þær væru að fara ganga af velli. Þetta var ekkert í líkingu við knattspyrnu og það sem við erum vön að sjá. Það eru margir sem fylgjast með HM og þessi hegðun var ekki gott fordæmi fyrir ungar knattspyrnukonur. Ég er hins vegar mjög ánægður með mitt lið og hugarfar leikmannanna sem misstu aldrei einbeitinguna þrátt fyrir þennan farsa sem var í gangi,“ sagði Neville ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert