Coutinho að missa treyjuna?

Philippe Coutinho lék í treyju númer sjö hjá Barcelona á …
Philippe Coutinho lék í treyju númer sjö hjá Barcelona á síðustu leiktíð. AFP

Spænskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Philippe Coutinho, sóknarmaður spænska knattspyrnuliðsins Barcelona, sé að missa treyjunúmerið sitt hjá félaginu. Coutinho kom til Barcelona frá Liverpool í janúar 2018 fyrir metfé en hann hefur ekki náð sér á strik með spænska liðinu og hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu.

Fyrst þegar að Coutinho kom til félagsins lék hann í treyju númer 14 en síðasta sumar fékk hann treyju númer 7. Hann lék í þeirri treyju allt síðasta tímabil en Barcelona staðfesti í vikunni að félagið hefði keypt franska sóknarmanninn Antoine Griezmann af Atlético Madrid fyrir 120 milljónir evra.

Griezmann hefur alla jafna leiki í treyju númer 7 á sínum ferli, bæði hjá Atlético Madrid sem og franska landsliðinu, og greina spænskir fjölmiðlar frá því að Griezmann muni fá treyjuna hjá Barcelona líka. Þetta ýtir undir þær sögusagnir að Coutinho sé á förum frá Barcelona en hann hefur meðal annars verið orðaður við bæði PSG og Liverpool að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert