Fer fram á sölu frá Real Madrid

Keylor Navas er kominn með nóg af bekkjarsetu og vill …
Keylor Navas er kominn með nóg af bekkjarsetu og vill yfirgefa Real Madrid. AFP

Keylor Navas, markmaður spænska knattspyrnuliðsins Real Madrid, hefur beðið um að vera seldur frá félaginu en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu.

Þessi 32 ára gamli leikmaður kom til Real Madrid árið 2014 í kjölfarið á góðri frammistöðu með landsliði Kostaríka á HM í Brasilíu, en hann átti ekki fast sæti í liðinu á síðustu leiktíð.

Real Madrid keypti Thibaut Courtois af Chelsea sumarið 2018 og var belgíski landsliðsmaðurinn markmaður númer eitt á síðustu leiktíð. Navas á að baki 162 leiki fyrir Real Madrid þar sem hann hefur þrívegis unnið Meistaradeildina og einu sinni orðið spænskur meistari.

Franska stórliðið PSG hefur mikinn áhuga á því að fá Navas frá Real Madrid en Thomas Tüchel, knattspyrnustjóri PSG, er mikill aðdáandi leikmannsins. Verðmiðinn á Navas er í kringum 9 milljónir evra en hann er samningsbundinn Real Madrid til júní 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert