Hefur engan áhuga á Benzema

Karim Benzema
Karim Benzema AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Karim Benzema notaði samfélagsmiðla um helgina til að lýsa yfir að hann hefði ekki lengur áhuga á að spila fyrir franska landsliðið. Bætti hann við að hann hefði áhuga á að spila fyrir annað landslið sem hann væri löglegur fyrir.

Benzema nefndi ekki hvaða landslið hann átti við, en báðir foreldrar hans eru frá Alsír og væri hann því löglegur með alsírska landsliðinu. Benzema á hins vegar 81 landsleik fyrir Frakka að baki og því ólíklegt að hann fengi leyfi frá FIFA til að spila með Alsír.

Djamel Belmadi, landsliðsþjálfari Alsírs, var spurður út í áhuga Benzema á að spila fyrir þjóðina en hann gaf lítið fyrir það.

„Ég er með leikmenn eins og Baghdad Bounedjah, Islam Slimani, Andy Delort og Hillal Soudani. Ég er mjög ánægður með þá leikmenn sem ég hef,“ sagði Belmadi og vildi hann ekki tjá sig ferkar út í ummæli framherjans.

mbl.is