Mikael og félagar með sjö stiga forskot

Mikael Anderson í leik með 21-árs landsliðinu.
Mikael Anderson í leik með 21-árs landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Anderson og samherjar hans í Midtjylland náðu í gærkvöld sjö stiga forskoti á FC København í einvígi liðanna um danska meistaratitilinn í knattspyrnu.

Midtjylland tók á móti Lyngby og sigraði 2:0 með mörkum frá Anders Dreyer og Awer Mabil og er komið með 53 stig eftir 21 umferð. FC København, lið Ragnars Sigurðssonar, tapaði fyrir Esbjerg, 1:0, á föstudagskvöldið og situr eftir með 46 stig í öðru sætinu. Jón Dagur Þorsteinsson og samherjar í AGF eru með 36 stig í þriðja sæti en leik þeirra við Randers um helgina var frestað vegna vallarskilyrða.

Mikael lék allan leikinn á miðjunni hjá Midtjylland í gærkvöld. Frederik Schram er varamarkvörður Lyngby og sat á bekknum en lið hans er í 8. sæti deildarinnar með 28 stig og í hörðum slag að komast í hóp sex efstu liðanna fyrir úrslitakeppnina. Sex efstu liðin eftir 26 umferðir leika áfram tvöfalda umferð innbyrðis og taka öll stig með sér þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert