Barcelona vill lækka laun um meira en helming

Leikmenn Barcelona gætu lækkað töluvert í launum.
Leikmenn Barcelona gætu lækkað töluvert í launum. AFP

Spænski knattspyrnurisinn Barcelona íhugar nú að lækka laun allra leikmanna sinna um 70% svo lengi sem enginn fótbolti er spilaður í landinu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Leikmennirnir eru sagðir móttækilegir hugmyndinni en ekkert samkomulag hefur náðst.

Launalækkunin myndi ná til allra knattspyrnumanna félagsins, karla- og kvennaflokkarnir sem og yngri leikmenn. Hún myndi einnig ná til þeirra starfsmanna sem vinna náið með leikmönnunum.

Barcelona er til þessa eina spænska félagið sem hefur opinberað slík áform en búist er við að fleiri félög muni fara í svipaðar aðgerðir. Forráðamenn spænsku deildarinnar hafa heitið því að styðja félögin með fjárveitingum.

Barcelona eyðir um 600 milljónum evra í launagreiðslur á hverju ári og er efnahagsstaða félagsins ekki svo sterk, að það geti staðið við þær skuldbindingar nema tímabilið hefjist á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert