Fimm leikmenn í skiptum fyrir framherja?

Argentínski framherjinn er efstur á óskalista spænska félagsins.
Argentínski framherjinn er efstur á óskalista spænska félagsins. AFP

Spænska knattspyrnuliðið Barcelona er sagt tilbúið að láta fimm leikmenn fara til Inter Mílanó í skiptum fyrir Lautaro Martínez, framherja liðsins, en það eru ítalskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Lautaro hefur verið sterklega orðaður við Barcelona undanfarnar vikur en argentínski framherjinn er sagður efstur á óskalista félagsins.

Barcelona er í fjárhagsvandræðum en félagið er með himinháan launakostnað og eftir að kórónuveiran blossaði upp á Spáni og deildinni var frestað er félagið í basli. Þrátt fyrir það eru forráðamenn félagsins staðraáðnir í að styrkja leikmannahóp liðsins í sumar en Luis Suárez, framherji liðsins, er að komast á aldur og félagið vill kaupa arftaka hans í sumar.

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að leikmaðurinn sé nú þegar búinn að samþykkja samningstilboð Barcelona en spænska liðið á hins vegar ennþá eftir að semja við Inter um kaupverðið á leikmanninum. Martínez er með klásúlu í samningi sínum upp á 92 milljónir punda og er Inter sagt vilja þá upphæð fyrir leikmanninn.

Spænska félagið er sagt tilbúið að láta þá Arturo Vidal, Arthur Melo, Jean-Clair Tobido, Carles Alena og Nelson Semedo í skiptum fyrir Martínez. Tobido og Alena eru varaskeifur hjá félaginu en Vidal, Arthur og Semedo hafa allir verið hluti af aðalliði félagsins á tímabilinu og hafa spilað 83 leiki í öllum keppnum á milli sín.

mbl.is